143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

stjórnartillaga um slit aðildarviðræðna við ESB.

[15:45]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað ekki að ástæðulausu sem þingmenn koma hér upp og ræða þá ákvörðun sem var tekin. Eins og kom fram áðan, eins og heyra má úti á Austurvelli og sjá eru það ekki einungis þeir þingmenn sem eru hér inni sem eru því ekki sammála að taka málið til umfjöllunar á þessum tímapunkti.

Ég velti fyrir mér af hverju hæstv. utanríkisráðherra lá svona á að leggja fram þessa þingsályktunartillögu. Hræðast menn skýrsluna sem er fram undan hjá Alþjóðamálastofnun háskólans og gæti komið með annan vinkli á málið? Eða var þetta bara einn stór hráskinnaleikur sem hér var leikinn, af því að ákvörðunin virðist hafa legið fyrir? Hún skipti engu máli, þessi 25 millj. kr. skýrsla. Ríkisstjórnin var búin að taka ákvörðun og því spyr ég: Var einhver þörf á þessari úttekt ef það átti hvort sem er ekkert að gera með hana, ef hæstv. ríkisstjórn telur að ekkert sé á henni að græða? (Forseti hringir.)

Ég hef sagt það ásamt fleirum að hún bætir auðvitað litlu við, hún er svolítið góð samantekt á þeim staðreyndum sem fram hafa komið í málinu (Forseti hringir.) til þessa.