143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

stjórnartillaga um slit aðildarviðræðna við ESB.

[15:46]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég vil ekki ganga í Evrópusambandið en það er ekki mitt að segja af eða á. 2/3 hlutar þjóðarinnar vilja fá þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort við höldum áfram aðildarviðræðum. Það er tækifæri til að gera það. Nú er búið að leggja fram þingsályktunartillögu á Alþingi um að málið fara í slíka þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða sveitarstjórnarkosningunum í vor, og ef við ætlum að fá þá þjóðaratkvæðagreiðslu verður að samþykkja hana í þessari viku, fyrir föstudagslok.

Þingsályktunartillagan er komin fram og hún er flutt af Pírötum, Bjartri framtíð og Samfylkingunni. Ég vil spyrja þingforseta hvort hann vilji ekki setja þetta mál á dagskrá, það er hægt að setja það án afbrigða á dagskrá á miðvikudaginn, setja það svo í nefnd yfir nóttina eða yfir kvöldið, taka það aftur upp á fimmtudeginum og klára það. Það er hægt að gera. Með afbrigðum væri hægt að gera þetta í dag, það væri hægt að gera það á morgun. Ég vil spyrja þingforseta aftur: (Forseti hringir.) Eigum við ekki að hlusta á þjóðina, sama hvort við þingmenn og ráðherrar o.s.frv. viljum eða viljum ekki ganga í Evrópusambandið? (Forseti hringir.) Eigum við ekki að hlusta á vilja þjóðarinnar í þessu stóra máli?