143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

stjórnartillaga um slit aðildarviðræðna við ESB.

[15:51]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að þessi tillaga komi ekki til umræðu fyrr en búið er að ræða skýrsluna sem á að ræða hér í kvöld og hún búin að fá fullnægjandi þinglega meðferð. Fyrir því eru þau rök að þannig lagði ríkisstjórnin málið upp í upphafi, að umfjöllun um skýrsluna ætti að hafa efnislega þýðingu.

Hæstv. utanríkisráðherra spurði áðan af hverju í ósköpunum verið væri að taka tillöguna af dagskrá. Ég ætla að upplýsa hann um nokkrar ástæður. Tillagan stenst hvorki stjórnarskrá né landslög. Í henni er gert ráð fyrir að með þjóðaratkvæðagreiðslu sé verið að binda hendur þingmeirihluta um ókomna tíð. Hæstv. utanríkisráðherra lagði hér fram fráleitt lögfræðiálit í ágúst sl. sem fól í sér að ríkisstjórnir væru algjörlega óskuldbundnar til að fara að þingsályktunum um utanríkismál yfir höfuð. Það var afstaða hæstv. utanríkisráðherra þá.

Núna kemur hann algjörlega á haus með tillögu sem felur í sér að þingmeirihlutinn núna (Forseti hringir.) eigi að geta bundið hendur þingmeirihluta um alla framtíð. Það er ótrúlegur viðsnúningur og stenst (Forseti hringir.) ekki á nokkurn hátt grundvallarreglur stjórnarskrár eða laga um þjóðaratkvæðagreiðslur.