143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

stjórnartillaga um slit aðildarviðræðna við ESB.

[15:54]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Það eru nokkrir þættir sem hæstv. forseti þarf að gera sér far um að rækja. Í fyrsta lagi verður hann að gera það sem hann getur til að stuðla að virðingu þingsins. Ég dreg í efa að það hafi verið gert með því að heimila framlagningu þessarar tillögu áður en búið var að ræða skýrsluna sem hæstv. ríkisstjórn sagði þó að ætti að vera forsenda næsta skrefs.

Í öðru lagi verður hæstv. forseti að gæta að rétti stjórnarandstöðunnar hér. Ég segi það enn og aftur að það sveið á mínu holdi, sem er töluvert mikið umfangs, þegar ég fékk aðeins 24 tíma til að lesa þúsund blaðsíður. Á sama tíma heyrði ég hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur vera að ræða hana í fjölmiðlum. Hún sparaði okkur að vísu að dósera um þekkingu sína á landafræði smáríkja í Miðjarðarhafinu en það er önnur saga.

Í þriðja lagi verður hæstv. forseti að sýna stjórnfestu. Hann hefur komið með ákveðnar skýringar á því sem ég spurði hann um. Ég get tekið þær gildar með fyrirvara. Ég held að hann hafi talað hreinskilnislega en ég er ósammála forsendunum sem hæstv. forseti gaf sér fyrir ákvörðun.