143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

stjórnartillaga um slit aðildarviðræðna við ESB.

[16:06]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það sem stendur eftir hér eftir þessa umræðu um fundarstjórn forseta er spurning sem hefur alls ekki verið svarað: Til hvers var skýrslan? Til hvers var þessi vinna?

Í fyrsta lagi: 25 milljónir til hvers? Var þetta leikaraskapur frá byrjun, var þetta partur af einhverri sviðsetningu stjórnarflokkanna þar sem þeir vildu ramma inn eitthvert leikrit sem snerist um lýðræðisleg vinnubrögð og þingræði? Var það svoleiðis?

Í öðru lagi: Af hverju lá svona mikið á? Hvað gerðist á föstudaginn? Af hverju mátti ekki bíða eftir því að þingið fengi að ljúka umræðu um málið?

Því hefur ekki verið svarað og ég spyr: Hefur ekki virðulegur forseti skoðun á því hvernig framkvæmdarvaldið kemur fram við þingið, þ.e. við fáum ekki að ljúka þinglegri yfirferð um skýrsluna, efnislegri umræðu, og vera öll á sama stað þegar kemur síðan að einhverri niðurstöðu stjórnarflokkanna? Eigum við ekki að gæta að virðingu þingsins í þessu efni, eða ræður hæstv. utanríkisráðherra hér lögum og lofum?