143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar.

[16:35]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Síðasti föstudagur var stór dagur fyrir hæstv. fjármálaráðherra, formann Sjálfstæðisflokksins, þegar hann leiddi Sjálfstæðisflokkinn til ákvörðunar um að draga til baka aðildarumsóknina að Evrópusambandinu og svíkja þannig skýr og endurtekin loforð sem hann hafði sjálfur gefið. Gylfi Zoëga prófessor lýsti ágætlega hversu óskynsamleg þessi ákvörðun er þegar hann sagði, með leyfi forseta:

„Fyrir liggur ítarleg skýrsla um kosti okkar í gjaldmiðilsmálum sem reyndust aðeins tveir. Það er ekki skynsamlegt að loka með öllu til næstu áratuga annarri af tveimur leiðum, allra síst þegar er með öllu óljóst hvernig við eigum að lifa með því að fara hina leiðina.“

Dagsverk hæstv. fjármálaráðherra var nú meira á föstudaginn því að á sama degi var tilkynnt um þá ákvörðun hans að auglýsa stöðu seðlabankastjóra nokkrum dögum eftir að forsætisráðherra vó að sjálfstæði Seðlabankans. Með þeirri ákvörðun er okkur gert illmögulegt að lifa við íslenska krónu eftir afnám gjaldeyrishafta. Með öðrum orðum er með þeirri ákvörðun grafið undan hinum valkostinum.

Erlendir fjölmiðlar skilja þetta samhengi, pólitískar aðfarir að Seðlabankanum og auglýsingar á stöðu seðlabankastjóra, þótt fjármálaráðherra afneiti því við hvert fótmál. Tugir frétta í erlendum fjölmiðlum eru til vitnis um það: „Staðan auglýst eftir að ríkisstjórninni sinnaðist við bankastjórann“, segir í einum fjölmiðli. Ein áhrifamesta fyrirsögnin var: „Laus staða: Meðfærilegur seðlabankastjóri óskast.“ (Gripið fram í.)

Nú, þegar búið er að loka báðum leiðum, hver er þá stefna Íslands? Hæstv. fjármálaráðherra féllst ekki á það hér í síðustu viku að fara ætti að Maastricht-skilyrðunum og þau ættu að vera grunnur að efnahagsstefnu Íslands eða stefnumörkun í peningamálum. Ég hlýt því að spyrja hæstv. fjármálaráðherra, sem svo illa hefur farið að ráði sínu á einum föstudegi: Hver er leiðin fram á við fyrir hann?