143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar.

[16:37]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér er blandað saman mörgum ólíkum málum í stuttri fyrirspurn. Fyrst þetta.

Hv. þingmaður hefur haft fjögurra ára reynslu af því að eiga í samstarfi við annan stjórnmálaflokk um aðildarviðræður við Evrópusambandið með engum árangri. Kannski er það ástæðan fyrir því að þrátt fyrir að flokkur hans legði höfuðáherslu á inngöngu í Evrópusambandið fyrir síðustu kosningar — reyndar verð ég að taka það fram að formaður Samfylkingarinnar er ekki búinn að gera upp hug sinn til Evrópusambandsaðildar, hann vill halda ákveðnum fyrirvara á vilja sínum til inngöngu — ætti hann að hafa gert sér grein fyrir því eftir þessi fjögur ár að ríkisstjórn þar sem hver og einn einasti ráðherra í ríkisstjórninni er andvígur inngöngu í sambandið er ekki líkleg til þess að semja um inngöngu.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon orðaði þetta líka ágætlega í þinginu á sínum tíma þegar hann sagði rétt að þingið áskildi sér rétt til þess að hætta aðildarviðræðunum hvenær sem er. Þetta sagði hv. þingmaður þegar hann var í samstarfi við núverandi formann Samfylkingarinnar.

Hér er farið inn á málefni Seðlabankans. Staða seðlabankastjóra var laus. Það er sögð aðför að sjálfstæði Seðlabankans að auglýsa þá stöðu. Má ég biðja hv. þingmann að útskýra það fyrir mér hvað það var þegar fyrrverandi forsætisráðherra hringdi í seðlabankastjóra og bað þá vinsamlegast um að víkja úr sæti sínu. Þegar þeir gerðu það ekki lagði hún fram frumvarp á Alþingi sem hún sagði að væri nauðsynlegt að fá samþykkt til þess að endurreisa traust á Seðlabankanum, sem sagt lýsti beinlínis yfir vantrausti á þinginu á Seðlabankann og bankastjórn hans og þvingaði það síðan í gegnum þingið á nokkrum dögum. Þá var staðan ekki laus. Þá var enginn aðdragandi. Þá var (Forseti hringir.) ekkert samráð haft við nokkurn flokk. Þar var engin greinargerð.

Að koma hingað upp (Forseti hringir.) og gera því skóna að hér sé vegið að sjálfstæði Seðlabankans þegar (Forseti hringir.) staðan er auglýst með þeim rökum sem ég hef nú þegar teflt fram kallar á skýringar á þessari sögu frá 2009.

(Forseti (KLM): Ég vil biðja þingmenn og ráðherra að huga að tímamörkum og fara ekki fram yfir leyfðan tíma.)