143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar.

[16:40]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra verður að átta sig á því að sá fruntagangur sem hæstv. forsætisráðherra og hann hafa sýnt í þessum málum er lesinn af erlendum fjölmiðlum. Það getur alveg verið að þeir haldi að þeir geti búi til sinn litla heim hér á Íslandi og fengið Morgunblaðið til að skrifa lekkerar fréttir af því sem þeir eru að gera. En umheimurinn sér hvað verið er að gera og erlendir fjölmiðlar, tugum saman, líta svo á að verið sé að gera aðför að sjálfstæði Seðlabankans.

Mér finnst líka eðlilegt að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Hvernig getur maður sem sannfærðist um það fyrir fimm árum síðan að mjög mikilvægt væri fyrir Ísland að sækja um aðild að Evrópusambandinu, sem taldi á grundvelli hagsmunamats að þörf væri á því, tekið þá ákvörðun að standa að þingsályktunartillögu á Alþingi sem ekki bara útilokar þann kost í bráð heldur hefur það að markmiði sínu, (Forseti hringir.) þótt tillagan sé reyndar svo vitlaust og illa skrifuð að hún mun aldrei lögfræðilega geta gert það, að læsa (Forseti hringir.) komandi kynslóðir frá því að taka þá frjálsu ákvörðun sem hv. (Forseti hringir.) þingmaður tók þegar hann lýsti því yfir í ársbyrjun 2009 (Forseti hringir.) að hann vildi sækja um aðild að Evrópusambandinu? Hvernig réttlætir hann að loka dyrum á þennan hátt?