143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

ráðgjafarhópur um afnám gjaldeyrishafta.

[16:42]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hæstv. ríkisstjórn boðaði það þegar hún tók við völdum að hún ætlaði að efla samráð á öllum sviðum. Eitt er það svið hins vegar þar sem ég hef saknað nokkurs samráðs, það er verkefni sem lýtur að afnámi gjaldeyrishafta. Nú veit ég að hæstv. forsætisráðherra hefur talsvert verið spurður um stöðu þeirra mála í fyrirspurnatímum að undanförnu, sérstaklega hvað varðar nýja áætlun um afnám hafta. Hann hefur svarað því svo til að hann telji að betra sé að sú áætlun sé ekki gerð opinber.

Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir hv. þingmenn að fá aðeins á hreint hvernig unnið er nákvæmlega að þessum málum. Nú hefur verið settur á laggirnar þverpólitískur samráðshópur sem hefur fundað ærið stopult að mér skilst, einhverjir örfáir einn til tveir fundir og langt síðan síðasti fundur var. Ég hef verið að leita mér upplýsinga á heimasíðum forsætis- og fjármálaráðuneytis og ekki fengið upplýsingar til að mynda um fréttir sem hafa birst um boðaðan ráðgjafarhóp. Þar var vitnað í aðstoðarmann hæstv. forsætisráðherra um að skipan sérstaks ráðgjafa væri á lokametrunum, sú frétt birtist 15. nóvember. Þar voru taldir upp aðilar sem ættu að sitja í þeim hópi. Síðan kannaði ég það hvort sá hópur hefði verið skipaður, hvort hann hefði einhverja stjórnskipulega stöðu. Í fréttinni stóð samkvæmt heimildum að hann ætti að vera ráðherranefnd um efnahagsmál til ráðgjafar. Ég hef ekki séð að hann hafi verið skipaður eða hann hafi neina stjórnskipulega stöðu.

Mig langar því að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Var þessi hópur skipaður? Á hvers vegum starfar hann, forsætis- eða fjármálaráðuneytis? Varð eitthvað úr því sem kom fram í annarri frétt 15. ágúst, en þá var sagt að hæstv. forsætisráðherra mundi skipa eftir helgi verkefnisstjóra sem ætti að leiða vinnu við afnám gjaldeyrishafta og samning og samskipti við kröfuhafa föllnu bankanna? Var sá afnámsstjóri skipaður, bara svo við áttum okkur á því, og hafi hann verið skipaður starfar hann með þessum ráðgjafarhópi?

Ég spyr: Undir hvern heyrir þetta? Heyrir verkefnið um afnám hafta undir hæstv. forsætisráðherra eða undir hæstv. fjármála- (Forseti hringir.) og efnahagsráðherra?

Ég held að það sé mjög mikilvægt í ljósi þess að hinn þverpólitískur hópur hefur lítið komið saman að við séum nánar upplýst um fyrirkomulagið.