143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

ráðgjafarhópur um afnám gjaldeyrishafta.

[16:45]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Í fyrsta lagi er það rétt sem hv. þingmaður gat um að komið var á fót sérstökum pólitískum samráðshópi þar sem allir flokkar í þinginu eiga fulltrúa. Sá hópur mun fylgjast með og hefur fylgst með gangi þessara mála. Að vísu hefði kannski mátt vera meiri áhugi á fundum hópsins hjá fulltrúum nokkurra flokka hér í þinginu en hann mun engu að síður halda áfram að funda og fara yfir stöðu mála jafnóðum.

Þetta er raunar mun meira pólitískt samráð en var á sínum tíma. Þá var reyndar samráðshópur með fulltrúum stjórnmálaflokkanna en hlutverk hans var ákaflega takmarkað. Hann hafði í rauninni nánast ekkert um gang mála að segja þó að fulltrúar hópsins hafi reyndar tekið upp á því hjá sjálfum sér að senda formönnum flokkanna bréf um hvernig þeir mætu stöðu málsins og hvað þyrfti að gera. Og það var algjör samstaða vel að merkja og ágætisgreining sem þar lá til grundvallar. Nú mun þessi hópur starfa áfram og fá að fylgjast með gangi mála jafnóðum.

Hvað varðar næstu skref hef ég getið um það áður að beðið er eftir greiningu frá Seðlabankanum, greiningu af greiðslujöfnuði landsins, en sérfræðihópurinn eða ráðgjafarhópurinn sem hv. þingmaður spurði um hefur verið skipaður. Það er reyndar alllangt síðan hann var skipaður og hann hefur tekið til starfa og heyrir undir forsætisráðuneytið en starfar auðvitað í samráði forsætis- og fjármálaráðuneytisins. Hann heyrir reyndar undir ráðherranefnd um efnahagsmál og forsætisráðuneytið í gegnum það.

Hvað varðar spurninguna um — hvað var það kallað, virðulegur forseti, afnámsstjóra? þá hefur ekki staðið til að skipa neinn með þeim titli og ég veit ekki hvaðan hv. þingmaður hefur það. (Forseti hringir.) Það kann að vera að hann sé að vísa í einhverja frétt, en hún er þá ekki rétt.