143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

ráðgjafarhópur um afnám gjaldeyrishafta.

[16:47]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er alveg ferlegt með þessar fréttir hvað þær eru oft á misskilningi byggðar, en það var víst 15. ágúst sem vitnað var í aðstoðarmann hæstv. forsætisráðherra sem sagði að skipa ætti verkefnisstjóra sem leiða ætti vinnu við afnám gjaldeyrishafta, og að markmiðið væri að einfalda stjórnsýslu þessara mála, sem heyri undir margar stofnanir og ráðuneyti, og bæta yfirsýn. En kannski er þessi frétt á misskilningi byggð eins og svo margt annað.

Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin. Hvað varðar þennan ráðgjafarhóp, hann hefur verið skipaður, hann starfar og heyrir undir forsætisráðuneyti. Hefur hann stjórnskipunarstöðu eða er hann meira óformlegur hópur til ráðgjafar forsætisráðherra?

Ég vil líka segja um þennan þverpólitíska hóp — ég man nú ekki betur, því að ég hitti þann þverpólitíska hóp sem var starfandi á síðasta kjörtímabili, en að fleiri fundir hafi verið haldnir í þeim hópi, því að þessi hópur hefur fundað tvisvar sinnum. Það þýðir ekki bara að benda á að einhver fulltrúi hafi einhvern tíma ekki getað mætt á fund. Hann hefur fundað tvisvar samkvæmt fundargerðum, það er nú reyndar bara fundargerð frá fyrsta fundi.

Ég hlýt að leggja þá ósk fram til hæstv. forsætisráðherra að aukinn kraftur verði settur í þetta stóra verkefni, (Forseti hringir.) að þar verði alvöru þverpólitískt samráð þar sem upplýsingum er miðlað jafnharðan. (Forseti hringir.) Til að mynda var ekki búið að miðla því til þverpólitíska hópsins að þessi ráðgjafarhópur hefði einu sinni verið skipaður.