143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

framtíðarsýn í gjaldeyrismálum.

[16:49]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Við áttum smá orðastað um skýrslur áðan, ég og hæstv. fjármálaráðherra. Hér er ein, Sérrit Seðlabanka Íslands um valkosti Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum, þar sem rakið er mjög vel að valkostirnir eru í raun tveir. Það er annars vegar að hafa krónu hér með öllum þeim vandkvæðum sem því kann að fylgja og hefur fylgt Íslendingum á undanförnum áratugum. Hins vegar er það að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru. Þetta eru raunhæfu leiðirnar tvær sem Seðlabankinn mælir með.

Seðlabankinn segir að reynsla Íslendinga af frjálsum gjaldmiðli hafi verið svo slök að hún sé sláandi, sláandi slök. Það segir í þessari skýrslu að hafi krónan haft einhvern lækningamátt efnahagslega hafi lækningin verið verri en sjúkdómurinn, lækningin hafi orðið til þess að efnahagskerfið var helsjúkt.

Við höfum búið við það á Íslandi að hér hafa orðið eignabólur, gengishrun, verðbólgan grasserað, oft og tíðum réttlætt með því að það þurfi að bjarga ákveðnum útflutningsatvinnuvegum. Fé hefur verið flutt frá almenningi til þessara útflutningsatvinnuvega hvað eftir annað. Við búum ekki við stöðugleika. Við höfum ekki búið við stöðugt efnahagslíf og nú erum við með krónuna í höftum, við erum með hana í höftum og það er snjóhengja yfir okkur sem varðar heila landsframleiðslu.

Hæstv. fjármálaráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur núna ákveðið að skynsamlegt sé að loka þeim valmöguleika sem Seðlabankinn telur sigurstranglegri í þessari viðureign, loka þeim valmöguleika. Og það er ekkert víst hvenær við getum opnað þann möguleika aftur. Þá hlýt ég að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Hver er sýn hans í gjaldmiðilsmálum? Það getur ekki verið að hæstv. fjármálaráðherra taki slíka ákvörðun öðruvísi en að hafa mjög skýra sýn á það (Forseti hringir.) hvernig gjaldmiðilsmálum á að vera háttað á Íslandi á 21. öldinni. Ég óska eftir því að hæstv. (Forseti hringir.) fjármálaráðherra segi núna almenningi og atvinnulífinu í landinu hvernig gjaldmiðilsmálum á að vera háttað að hans mati.