143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

framtíðarsýn í gjaldeyrismálum.

[16:55]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Spurningin um upptöku evrunnar er ekki bara spurning um að ganga inn í evrusamstarfið. Hún er um leið spurning um að ganga inn í Evrópusambandið og taka upp löggjöf á hinum ýmsu sviðum, til dæmis um stjórn fiskveiða, og taka þátt með virkum hætti í Evrópuþinginu og undirgangast stefnu Evrópusambandsins á fjölmörgum öðrum sviðum. Þess vegna er Evrópusambandsumræðan í raun og veru miklu stærri spurning en bara um það sem snýr að krónunni og evrunni.

Ég sé fyrir mér á næstu árum að við þurfum að auka agann í opinberum fjármálum. Ég sé fyrir mér krónu sem stýrist af gangi okkar í utanríkisviðskiptum, við þurfum því að leggja áherslu á aukin utanríkisviðskipti. Ég vil ekki höft á krónuna en ég sé fyrir mér að við þurfum að uppfæra peningamálastefnuna þar sem grunnurinn verður verðstöðugleiki. Seðlabankinn hefur sjálfur kallað þá stefnu verðstöðugleika plús með nýjum skilyrðum sem taka mið af þeim veikleikum sem fram hafa komið í framkvæmd (Forseti hringir.) peningastefnunnar til þessa.

Þetta tel ég að hægt sé að gera, enda hafi menn trú og traust á því sem stjórnvöld eru að gera (Forseti hringir.) hverju sinni takist okkur að skapa ný störf og efla útflutningsgreinarnar í landinu.