143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

samkeppnishæfni Íslands á sviði gagnahýsingar.

[16:59]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmanni þegar hann fjallar um möguleika okkar til að sækja aukin viðskipti og aukin umsvif um þá sæstrengi sem liggja til Íslands og geta fært okkur möguleika í tengslum við umhverfisvæna orku og tiltölulega kalt andrúmsloft á Íslandi til þess að draga hingað fjárfestingu. Það eru miklir möguleikar þarna og við höfum rætt þetta aðeins á undanförnum dögum hér í þinginu. Mér skilst að hv. þingmaður sé kominn fyrir nefnd iðnaðarráðherra til þess að kanna möguleika á að byggja upp frekari þjónustu á því sviði á Íslandi. Þau tækifæri eigum við að grípa.

Varðandi þær hindranir sem hv. þingmaður nefnir eru þær til skoðunar í ráðuneytinu. Það er ekki komin niðurstaða um það hvernig hægt er að bregðast við þessum ábendingum, en þær komu reyndar fram fyrir allnokkru síðan. Ég er ekki kominn með endanlega niðurstöðu um það með hvaða hætti við getum rutt úr vegi tæknilegum hindrunum, eða lagatæknilegum hindrunum ætti ég kannski frekar að segja, á borð við þá sem hann nefnir. Ég kannast við það að alþjóðlegir fjárfestar segi þetta draga úr viljanum til þess að stofna til starfsemi á Íslandi.