143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

mótmæli atvinnulífsins við slitum aðildarviðræðna við ESB.

[17:04]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Það liggur fyrir og hefur legið fyrir að ég og formaður Samtaka atvinnulífsins og ég og formaður Samtaka iðnaðarins erum ekki sammála í Evrópumálum. Það liggur hins vegar líka fyrir og hefur lengi legið fyrir að ég og það ágæta fólk og aðrir sem hv. þingmaður vitnaði til erum sammála um mjög margt annað sem snýr að íslensku efnahagslífi.

Það sem atvinnulífið þyrstir í er stöðugleiki í efnahagsmálum. Hæstv. fjármálaráðherra fór yfir það áðan sem er á borðinu núna hjá hæstv. fjármálaráðherra. Það er verið að vinna að því að afnema gjaldeyrishöft. Það er verið að undirbúa frumvarp um opinber fjármál sem munu bæta efnahagsstjórnina. Við samþykktum hérna fjárlög fyrir jól sem skiluðu afgangi á ríkissjóði og við erum að stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs. Þetta erum við að gera ásamt því að hefja þann leiðangur að lækka hér skatta, öfugt við það sem var gert í tíð síðustu ríkisstjórnar. Atvinnulífið kvartaði mikið undan því og ég gæti spurt hv. þingmann hvort hún hafi verið að hlusta þá.

Varðandi það hvort ESB sé leiðin að stöðugleika er ég ekki þeirrar skoðunar. Það sem ég held að við þurfum að gera er að einbeita okkur að því að leysa þau vandamál sem við glímum við. Þar er ég sammála forsvarsmönnum atvinnulífsins. Ég er algjörlega sannfærð um að ESB aðild ein og sér dugar ekki til. Ég átti þess kost á síðasta kjörtímabili að eiga fundi með til dæmis stækkunarstjóra Evrópusambandsins eftir að þáverandi hæstv. utanríkisráðherra hafði komið hér margoft og sagt: Við þurfum að ganga í Evrópusambandið til að afnema höftin. Við fáum aðstoð þar. Þá spurði ég Stefan Füle að því á fundi með fleiri þingmönnum frá Íslandi. (Forseti hringir.) Stuðningur Evrópusambandsins við það var að skaffa sérfræðinga í nefnd. Við þurfum (Forseti hringir.) að gera þetta sjálf. Þess vegna er það mín skoðun að við þurfum einmitt að byrja á því, (Forseti hringir.) síðan getum við tekið aðrar ákvarðanir eftir atvikum.