143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

mótmæli atvinnulífsins við slitum aðildarviðræðna við ESB.

[17:07]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þessir aðilar eru ekki að tala um neitt smámál eins og t.d. að þessi ríkisstjórn hafi lækkað tryggingagjaldið um 0,1% eins og hún gerði og segist svo vera á braut mikilla skattalækkana (Gripið fram í.) til fyrirtækja í landinu. Já, það er nú aldeilis, 0,1%, það er frábært. Þetta snýst bara ekkert um það. Þetta snýst um miklu, miklu stærra mál sem er peningastefna þjóðarinnar til lengri framtíðar. Við höfum aldrei á Íslandi búið við stöðugleika í gjaldmiðilsmálum. Aldrei. Aldrei.

Það eina sem verið er að biðja um hér er að menn loki ekki þeirri einu leið sem er fær til að taka upp annan gjaldmiðil, en það er það sem þessi ríkisstjórn er að gera með ákvörðun um að slíta viðræðum. Með því t.d. að kæla viðræðurnar og segja að næsta ríkisstjórn geti tekið upp þráðinn ef hún hafi áhuga á því (Forseti hringir.) — það væri allt annað mál. Þessi ríkisstjórn er að fremja skemmdarverk fyrir atvinnulífið í landinu. Hún er að (Forseti hringir.) fremja skemmdarverk fyrir heimilin í landinu inn í langa, langa framtíð. (Forseti hringir.) Sagan mun ekki dæma hana vel af því.