143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

þingleg meðferð mála frá utanríkisráðherra.

[17:16]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Líkt og öðrum þingmönnum finnst mér eiginlega nauðsynlegt að við fáum nákvæmlega úr því skorið hvernig dagskránni verður hagað á morgun og næstu daga. Ég tel óviðunandi að við fáum þessa gerræðistillögu hæstv. utanríkisráðherra á dagskrá áður en þingnefndin hefur skilað umfjöllun um skýrsluna aftur inn til okkar. Ég á eftir að halda ræðu í málinu. Það er ýmislegt sem ég vonast til að hv. utanríkismálanefnd hlusti á þannig að mér finnst alveg ómögulegt að við förum að ræða þá gerræðistillögu sem hér hefur verið lögð fram um slit á viðræðum við Evrópusambandið, að loka þessum mikilvægu dyrum sem við höfum í framtíðinni, án þess að utanríkismálanefnd sé búin að skila af sér umfjöllun um skýrsluna sem hér er til umræðu.