143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

þingleg meðferð mála frá utanríkisráðherra.

[17:23]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil lýsa ánægju minni með hæstv. forseta sem nú situr og stýrir þinginu að hafa lofað því að hlusta. Það er eitthvað annað en það sem við urðum vitni að þegar við stóðum í umræðu um nýja skýrslu með loforði í stjórnarsáttmála um að bíða eigi með alla umræðu um ESB þar til skýrslan væri komin; hún eigi að fá vandaða umfjöllun, þjóðin eigi að fá að ræða málin og síðan verði tekin ákvörðun.

Hvað gerðist? Þegar við fáum síðan framan í okkur, það er nánast ullað á okkur og sagt: Við ætlum hvort sem er ekkert að taka mark á ykkur. Við erum komin í vandræði, við erum orðin hrædd, við óttumst það að menn fari að skipta um skoðun. Við verðum að drífa þetta af. Hróflað er upp einhverri tillögu og látið vita að ekki á að taka mark á þessu.

Ég held að við ættum að hafa það þannig að stjórnarþingmenn haldi sig fjarri, við höldum áfram að ræða skýrsluna, reynum að koma fram málefnalegum skilaboðum til þjóðarinnar. Ég skora á hv. stjórnarþingmenn, sem eru búnir að taka ákvörðun, að fara og vera annars staðar en leyfa okkur þá að tala við þjóðina eins lengi og okkur lystir og eins lengi og við þurfum.