143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

þingleg meðferð mála frá utanríkisráðherra.

[17:26]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Nú er það svo að ég er mjög ánægð með upplestur hæstv. forseta úr þingsköpum um að málið verði sent til nefndar og samkvæmt þingsköpum verði fjallað um það þar, síðan sent inn nefndarálit til þingsins og umræðu haldið áfram. En eftir stendur stóra spurningin sem mun náttúrlega hafa töluverð áhrif á það hvernig við högum máli okkar í þessari umræðu og við þeirri spurningu verður að fá svar og það veitir ekki framkvæmdarvaldið heldur forseti þingsins: Hyggst hann setja á dagskrá þingsályktunartillögu um slit á viðræðum við Evrópusambandið áður en umræðu um þessa skýrslu er endanlega lokið á Alþingi? Sé svarið já lít ég svo á að Alþingi sé búið að veita (Forseti hringir.) ríkisstjórn Íslands löggjafarvaldið í þessu landi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)