143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

þingleg meðferð mála frá utanríkisráðherra.

[17:35]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er fróðlegt að vita hvað tekst að teygja þetta mál ef menn ætla ekkert að taka þátt í umræðunni eða taka mark á henni. Ég er búinn að segja að þetta sé eins og að það sé verið að ulla framan í okkur.

Mig langar að biðja hæstv. forseta að beita sér fyrir því að hér verði fundur um það hvernig eigi að fara með þetta mál eins og hér hefur komið fram. Ég tel að menn hafi boðið fram málamiðlunarlausn sem var að málið fengi þinglega meðferð, því yrði vísað til nefndar, lagðar fram skýrslur, málin rædd. Síðan yrði reynt að upplýsa þjóðfélagið um þessar skýrslur og þá umræðu sem hér fer fram og eiga síðan rökræður, sem er eitt gríðarlega vinsælt orð frá hæstv. forsætisráðherra, sem virðist að vísu telja að það þýði að það eigi að flytja einræður yfir fólki en ekki að hlusta á það.

Síðan eiga menn að fara í þjóðaratkvæðagreiðsluna. Áhættan er þessi: Annars vegar gæti ríkisstjórnin tapað í þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu, það þýðir ekki að hún þurfi að fara frá. Þá fer hún í viðræðurnar eins og önnur verkefni sem henni eru falin af þinginu. (Forseti hringir.) Ef nei, þá er málinu lokið og þá er enginn ágreiningur um það lengur. Ég skora á hæstv. forseta að reyna að koma málinu í þann farveg þannig að þjóðin geti fengið að taka þátt í þessari umræðu.