143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:55]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í ljósi þess hvernig orð ráðherra þessarar ríkisstjórnar hafa verið túlkuð og sögð hafa valdið misskilningi eða ekki vera rétt eftir höfð, þá tel ég það ekki í mínum verkahring að túlka orð formanns míns. Hæstv. utanríkisráðherra gat spurt formanninn sem var hér í ræðu fyrir helgi — hann kaus að gera það ekki — um þessa spurningu.

Hins vegar af því að hann taldi mig vera að dylgja hér um erindi nefndarinnar er ég búin að fara í gegnum þær krækjur sem birtast á vef ráðuneytisins um skýrsluna og fylgiskjöl, ég held að þær séu fimm eða sex þessar krækjur, og þar er ekki að finna samninginn sem gerður var við Háskóla Íslands með viðauka þar sem fram koma efnisatriði þess sem um var beðið. Það fann ég að minnsta kosti ekki.

Ég er ekkert að ætla að utanríkisráðherra sé að segja ósatt en þetta var að minnsta kosti ekki að finna hér fyrir helgina. Ég leitaði að því um helgina og ég leitaði að því í morgun og ég fann það ekki. Mér þætti vænt um ef utanríkisráðherra er með þetta að hann gæti sent mér þetta á krækju og vísað mér bara á vefinn. Það væri mjög kurteislega gert af honum.

Það að túlka orð annarra þingmanna finnst mér ekki við hæfi. En við höfum alltaf sagt það, við Vinstri græn, að við höfum verið á móti aðild að sambandinu en áskildum okkur þann rétt að greiða atkvæði hverju sinni eins og hugur okkar stæði til. Það veit hæstv. utanríkisráðherra. Það breytir því ekki að það sem hann ætlaði að leggja hér fram í dag en var dregið til baka er ekki virðingarvert við umræðuna og henni ekki til framdráttar og málinu ekki heldur. Og það að segja í gær á Sprengisandi að efnislegri umræðu sé lokið um skýrsluna, það er óvirðing við okkur sem hér eigum eftir að tala.