143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:59]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Bjarkeyju Gunnarsdóttur fyrir ágæta ræðu og alveg sérstaklega þegar hún greindi afstöðu þingmanna á grundvelli þessarar skýrslu, sem hefði í raun ekkert breyst, þ.e. að þeir sem voru á móti eru jafnmikið á móti og þeir sem voru með eru jafnmikið með, sem er athyglisvert.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Segjum að viðræður eða aðlögun, eða hvað við viljum kalla það, leiddu til óskaplega góðra samninga, fælu í sér sérlausnir, varanlegar undanþágur eða hvað við viljum kalla það, segjum að þetta gæfi óskaplega góða niðurstöðu. Mundi hv. þingmaður þá greiða atkvæði með því að ganga í Evrópusambandið?