143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:00]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði í ræðu minni áðan hlýtur það alltaf að vera þannig að ef niðurstaðan er afskaplega góð fyrir land og þjóð, því skyldi ég þá ekki samþykkja það? Það er akkúrat það sem ég ekki veit. Ég hef ákveðnar hugmyndir sem mér hugnast ekki miðað við það litla sem ég veit. Ef einhver rök koma fram sem mér finnst verða þess valdandi að ég þurfi að skipta um skoðun þá geri ég það, mér finnst engin skömm að því.

Það litla sem ég veit í dag segir mér að þetta sé ekki eitthvað sem mér hugnast en að sjálfsögðu mundi ég breyta því áliti ef ástæða væri til. Það á maður að gera í öllum málum, sama hvort það er þetta eða eitthvað annað. Ef þú færð upplýsingar sem bæta hag þess sem þú ert að fjalla um hverju sinni, já. En þetta er akkúrat það sem ég var að segja, við erum að geta okkur til um hlutina, notum orðin hugsanlegt og ef, í staðinn fyrir að taka málið alla leið.