143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:08]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan og get sagt aftur er allt í lagi að fólk skipti um skoðun ef það hefur til þess rök, hvort sem það er hæstv. utanríkisráðherra eða einhver annar. Ég man ekki eftir þessu, en ég las meðal annars tillögur Framsóknarflokksins í þá veru og þeim var náttúrlega varpað fram á netmiðlum í ljósi þeirrar umræðu sem fór í gang þegar ljóst var að slíta átti viðræðum, eins og gengur og gerist var allt dregið fram. Það er í sjálfu sér rétt að við erum sammála því að samningur þarf að vera góður, hann þarf að vera varanlegur, eins og við segjum, til þess að við séum tilbúin til að samþykkja hann. Mér finnst mjög sérstakt í allri þessari umræðu, sem þó hefur átt sér stað, að ríkisstjórnin treysti sér ekki einhverra hluta vegna til að leggja málið í dóm þjóðarinnar. Hún hefur að vísu aðeins 51% atkvæðamagn á bak við sig þannig að 49% gætu hugsanlega verið andvíg henni, en hún gæti (Forseti hringir.) kannski gert ráð fyrir því, í ljósi þess (Forseti hringir.) stuðnings sem hún hefur, að það væri (Forseti hringir.) stuðningur við að hætta þessu.