143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:09]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér skýrslu utanríkisráðherra um aðildarviðræður við Evrópusambandið, ESB, og þróun mála innan sambandsins. Umræðan hefur verið mjög góð, mér finnst hún hafa verið málefnaleg og það er strax mikill plús í þessu máli.

Ég hef alltaf verið á móti aðild Íslands að Evrópusambandinu en á dálítið öðrum grunni en flestir aðrir. Ég hef velt því fyrir mér, ef maður horfir svona þúsund ár aftur í tímann, að Ísland var í 600 ár af þeim í tengslum við Evrópuþjóð og það gekk eiginlega ekki vel, það gekk eiginlega mjög illa. Í lok þess tímabils, 1918, voru Íslendingar þeir fátækustu í Evrópu, ég held að hægt sé að fullyrða það. Þó voru Danir ekkert sérstaklega slæm nýlenduþjóð, langt í frá, bara ágæt nýlenduþjóð.

Síðan þá, 1918, hafa lífskjör verið að batna á Íslandi, farið úr því að vera þau verstu í Evrópu í það að vera með þeim bestu í Evrópu þó að það hafi gengið ansi skrykkjótt á tímum með verðbólgu og gengisfellingum og öllu því. Þetta er samt sem áður staðan. Og ég hef velt því fyrir mér: Hvernig stendur á þessu? Skyldi það geta verið að þegar valdsmiðjan er langt frá þeim sem er haghafi eða hefur hagsmuni af því rýrni lífskjörin?

Ég horfi t.d. til Ísafjarðar eða Raufarhafnar, tökum Ísafjörð sem dæmi. Það er ekkert gert á Ísafirði nema það sé ákveðið í Reykjavík. Hér koma sveitarstjórnir í löngum bunum að biðja um fjárveitingu í þetta verkefni eða þennan spítala o.s.frv., og svo er tekin ákvörðun í Reykjavík seint eða illa eða aldrei og þeir verða að hlíta því. Nákvæmlega það sama tel ég að muni gerast þegar Ísland verður orðið aðili að Evrópusambandinu sem pínulítill hreppur í risastóru ríki. Hlutföllin eru svipuð eins og Raufarhöfn á móti Íslandi. Við getum velt því fyrir okkur hvað Raufarhöfn hefur mikil áhrif á hinu háa Alþingi Íslendinga. Staða Íslands verður svipuð og fjarlægðin verður svipuð, við verðum í þeirri stöðu að vera lítill hreppur á jaðrinum. Þetta tel ég vera veigamestu atriðin í minni afstöðu.

Svo hef ég búið í átta ár í risaríki, á námsárunum bjó ég í Þýskalandi. Það er reyndar langt síðan og eflaust hefur mjög margt breyst. En þar áttaði ég mig á því mjög fljótt að risakerfi getur ekki tekið tillit til einstaklinga. Einstaklingurinn verður að víkja þegar hagsmunir hans trufla risakerfið. Þetta var mín greining á stöðunni í Þýskalandi þegar ég sá þýska ríkisborgara sem ég þekkti vel verða logandi hrædda við gulu umslögin sem voru tilkynningar frá hinu opinbera, logandi hrædda.

Ég tel því að þetta sé ekki síður mikilvægt atriði, það sé miklu betra að vera stórt tannhjól í litlu úri en að vera pínulítið tannhjól í risastóru úri sem enginn hefur yfirsýn yfir. Einstaklingurinn minnkar í öfugu hlutfalli við íbúafjölda ríkisins sem hann býr í. Þetta er mín fullyrðing og ég fer ekkert ofan af henni fyrr en mér er sýnt annað.

Hvert stefnir Evrópusambandið? Ég gat um það áðan í andsvari og hef getið um það mörgum sinnum. Ef maður lítur 60 ár aftur í tímann þegar Evrópusambandið var stofnað — og til hvers var það stofnað, frú forseti? Til þess að varðveita frið í Evrópu sem hafði verið þjökuð af ófriði í þúsund ár. Og það hefur tekist. Þess vegna virði ég Evrópusambandið. Tekist hefur að varðveita frið innan Evrópusambandsins og það er ekki lítið atriði. En ég tel að Ísland eigi ekkert erindi þarna inn.

Ef við lítum 20, 30, 40 eða 100 ár fram í tímann og Evrópusambandið breytist jafn hratt og það hefur gert á síðustu fimm árum með fjármagnskreppunni og allt bankakerfið undir eina stjórn og allt svoleiðis, verður það orðið ríki með öllum þeim einkennum sem ríki hefur innan fimm ára. Við skulum gefa því tíu ár. En þá er Ísland orðið pínulítill hluti, hreppur í risastóru ríki eins og Bandaríkjunum eða Kína. Ég er aðallega hræddur við þessar hröðu breytingar þegar við tökum ákvörðun um að Ísland gangi inn. Það er nefnilega ekki þannig að við tökum ákvörðun um að ganga inn í sambandið í viku og svo ætlum við hætta því. Þegar við erum komin inn verður svo erfitt að fara aftur út, þó að það sé heimilt, af því að við verðum orðin samfléttuð inn í kerfi sem verður mjög erfitt að brjótast úr.

Hver þá staða Íslands í dag? Eða hver er staða EES, ef við förum fyrst í gegnum það? Ég tel að EES-samningurinn sé kominn alveg á jaðarinn sem íslenska stjórnarskráin þolir og íslenskt sjálfstæði þolir. Ég held að við ættum að skoða það með Norðmönnum og fleirum að ganga jafnvel inn í þann fríverslunarsamning sem Evrópusambandið er að gera við Bandaríkin og fá kannski svipaða stöðu með fríverslunarsamningi við Evrópusambandið og við náum með EES-samningnum. Þá þurfum við ekki að hafa sífelldar áhyggjur af stjórnarskránni.

Hver er staða Íslands í þessum nýja heimi? Þeir sem hafa efasemdir um Ísland í dag með 330 þúsund íbúa og mikinn og góðan mannauð, vel menntað fólk, ættu að velta því fyrir sér frammi fyrir hverju menn stóðu þegar barist var fyrir sjálfstæði Íslands. Árið 1918 bjuggu 90 þúsund manns á Íslandi, flestir í svokölluðum torfhúsum, sem ég vil kalla holur ofan í jörðinni. Þannig voru lífskjörin á Íslandi, þau voru ömurleg. Og stuttu áður höfðu ekki ófáir dáið úr ófeiti, sem þýðir hungur. Eftir þessa miklu samvinnu við Evrópuþjóð var staðan sú. Hafi menn efasemdir í dag um að Ísland sé nógu öflugt til að standa eitt hvað áttu menn að halda þá?

Menn hafa talað um að Evrópuþjóðirnar séu ekki sjálfstæðar og rætt um lítið land, litla eyju, Möltu, í því sambandi. En stjórnlagadómstóll Þýskalands hefur gefið viðvörunarmerki um að Þýskaland megi ekki ganga lengra í sameiningunni án þess að glata sjálfstæði sínu, Þýskaland sjálft. Og ég vil minna á það, frú forseti, að Þýskaland gerir engan fríverslunarsamning við Kína, það er ekki nógu sjálfstætt til þess, en Ísland var að gera það. Þannig að við erum þá alla vega sjálfstæðari en Þýskaland.

Þessi atriði hafa löngum stýrt afstöðu minni, það er þannig, og hún breytist ekkert við góða samninga eða eitthvað slíkt, af því að þeir koma ekkert inn í þetta. Við erum að tala um að vera hluti af risastóru ríki, risastóru bákni.

Núna verð ég var við að þeir sem eru hlynntir því að halda áfram viðræðum eru voðalega sárir. Þeir eru mjög sárir yfir því að sagt sé að nú skulum við hætta við og þeir tala um að ekki sé hægt að semja o.s.frv., ekki kíkja í pakkann. En þá ættu þeir sömu að skilja nokkurn veginn hvernig okkur hinum leið þegar ákveðið var að ganga til samninga, þegar sótt var um með fjórum línum, engum fyrirvara og ekki neitt, þegar sótt var um með mjög undarlegum hætti.

Ég heyrði atkvæðaskýringu margra þingmanna og ráðherra Vinstri grænna þá, sérstaklega hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur sem þá var ráðherra. Ég skora á alla að lesa þá ræðu, atkvæðaskýringu hennar um af hverju hún samþykkti það að ganga í Evrópusambandið. (Gripið fram í.) Hún samþykkti að sækja um aðild. (Gripið fram í: Það er svolítið annað.) Það er svolítið öðruvísi, segja menn. Bíddu við, ætlar hún að sækja um án þess að ganga inn? Þetta er nefnilega athyglisverð spurning. Svo tala menn um kattasmölun á þeim tíma og allt það.

Nú er það þannig að ég hef spurt marga kjósendur, eins og ég spurði hv. þm. Bjarkeyju Gunnarsdóttur hér áðan: Ef við næðum frábærum samningum, varanlegum undanþágum við fiskveiðistjórn, varanlegum undanþágum í landbúnaði, sérlausnum eða hvað menn vilja kalla það og næðum draumasamningi, munduð þið þá ganga inn? Það merkilega er að þá vilja margir sem ég hef talað við ekki ganga inn vegna þess að það býr nefnilega sami ótti hjá þeim og ég bý við, því að Evrópusambandið er að breytast mjög hratt og því sem búið er að samþykkja núna geta þeir breytt eftir 25, 30 eða 50 ár. Þeir segja: Það er hallæri, við þurfum að ná í meiri fisk, það er hungursneyð — ég segi það nú reyndar ekki — það vantar matvæli inn í Evrópusambandið og þá munum við þurfa að gera þetta og hitt til þess að ná í þann fisk.

Ég mundi því ekki treysta því að Evrópusambandið sé einhvern veginn óbreytanlegt frá tímanum í dag. Það er mjög breytilegt og mun breytast mjög hratt.

Svo er allt í einu núna komin nauð, einhver nauð að sækja um aðild að Evrópusambandinu eins og það sé meginmálið í íslenskum stjórnmálum. Af hverju þurfum við að sækja um aðild að Evrópusambandinu? Af hverju getum við ekki sótt um aðild að Bandaríkjunum eða NAFTA eða Kína eða einhverju öðru? Ég er ekki að mæla með því en það er allt í einu orðin einhver nauð að sækja um aðild að Evrópusambandinu og fara í viðræðuferli til enda. Ég skil það ekki. Þetta var sett í gang með undarlegum hætti og getur alveg eins horfið með undarlegum hætti.

Nú hafa menn talað um að það þurfi að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu af því að Sjálfstæðisflokkurinn hafi lofað því o.s.frv. Niðurstaða kosninganna var sú að hér komu tveir flokkar sem unnu mikið, eða Framsóknarflokkurinn vann alla vega mikið á, og þessir flokkar mynda ríkisstjórn. Þeir eru báðir á móti því að ganga í Evrópusambandið. Þá kemur upp sú merkilega staða ef við mundum fara í þjóðaratkvæðagreiðslu, gefum okkur það. Ef þjóðin segir nei, við viljum ekki ganga í Evrópusambandið, er allt í lagi, þá er allt í sómanum. En, frú forseti, ef þjóðin skyldi segja já þá þurfa aðilar sem eru á móti því að ganga í Evrópusambandið að semja við Evrópusambandið um aðild. Hvernig halda menn eiginlega að það gangi? Það verða stöðugt einhverjir útúrsnúningar; já, en við vildum þetta, við vildum þetta.

Ég minni bara á nýlegt dæmi. Jón Bjarnason fór með það umboð að ræða við Evrópusambandið um aðild og það gekk voðalega, voðalega hægt, þangað til hann var settur af. Það er því algjör rökleysa að fela fólki að semja um eitthvað sem það ekki vill, það gengur bara ekki. Ég er viss um Evrópusambandið mun segja: Nei, takk, við viljum ekki svona samningaviðræður.

Í þessu máli á ég því ekkert erfitt með að taka afstöðu. Ég styð þá tillögu sem hefur komið fram en reyndar ekki enn þá til umræðu. Ég tel að skýrslan sem við ræðum hér hafi verið mjög góð og hafi leitt í ljós að margt af því sem menn hafa sagt, eins og t.d. það að ef við göngum í Evrópusambandið lækki vextir, verðbólga lækki og sólin skíni allan daginn og það rigni á nóttunni er ekki raunhæft. Þetta eru tóm loforð.

Ef við hefðum haft evru í hruninu gef ég ekki mikið fyrir íslensk heimili og fyrirtæki þar sem skuldirnar hefðu ekki getað horfið í verðbólgu og gengisfellingu. Það hefði orðið svakalegt. Það að taka þátt í evrusamstarfi gerir kröfu um miklu meiri aga en við höfum búið við. Við skulum tileinka okkur aga fyrst og svo skulum við taka upp einhverja aðra mynt og kaupa hana. Við bara kaupum hana, hvort sem hún heitir evra eða dollari eða hvað það nú er, eða bara að vali hvers og eins, það mætti líka hafa það þannig. Ég tek ekkert eftir því þegar ég fer til útlanda og borga með kreditkorti hvað myntin heitir í viðkomandi landi, veit það stundum ekki. Maður borgar bara með kreditkortinu og er með reiknivél í símanum til að reikna út hvað vörurnar kosta og þetta gengur ágætlega.

Ég verð að koma inn á þá könnun sem birtist hérna nýlega frá MMR. Það er svo merkilegt að í Samfylkingunni eru 8% sem ekki vilja ganga í Evrópusambandið. Í Sjálfstæðisflokknum eru um 10% sem vilja það. Þetta eru því svipuð frávik í báðum þessum flokkum, öðrum sem vill ganga endilega inn í Evrópusambandið og hinum sem ekki vill það.