143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:27]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, hv. þingmaður hefur áhyggjur af því. En mig langar til að lesa um hlutverk byggðaþróunarsjóðsins upp úr meistararitgerð eftir Tryggva Harðarson um byggða- og uppbyggingarstefnuna, með leyfi forseta:

„Hlutverk byggðaþróunarsjóðsins er að styrkja efnahagslega og félagslega samheldni í aðildarlöndum ESB og vinna gegn því misræmi sem er á milli svæða. Byggðaþróunarsjóðurinn fjármagnar m.a. beinar fjárfestingar í atvinnulífi dreifðari byggða til að skapa störf og leggur til háar fjárhæðir í nýsköpun og styrkingu innviða, t.d. í þekkingariðnaði á svæðum þar sem fjármagns er þörf. Byggðaþróunarsjóðurinn leggur til fjármagn til bættra fjarskipta og samgöngunets dreifðari byggða, auk þess að stuðla að samskiptum, samvinnu og sjálfbærni milli dreifbýlis og þéttbýlis.“

Hæstv. forseti. Mér sýnist að þetta sé akkúrat það sem okkur vantar á Íslandi í dag. Það er bara þannig. Við höfum ekkert fjármagn til þess að mæta þörfum dreifðari byggða á Íslandi. Þetta er m.a. eitt af því sem fær mig til þess að hugsa um það að ganga inn í Evrópusambandið því að við höfum ekkert getað lagað þetta á síðustu árum á Íslandi, akkúrat ekki neitt.