143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:28]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það hefur verið farið í átak, t.d. ljósleiðaravæðingu o.s.frv., sett í það margir milljarðar. Það er því ekki alveg þannig að við höfum ekki gert neitt. En ég fer ekkert ofan af því að miklir styrkir eru til bölvunar og hvetja menn ekki til dáða. Þegar menn eru orðnir vanir miklum styrkjum eftir 20, 30, 40 ár eru þeir orðnir gjörsamlega háðir þeim. Ég er ekkert hrifinn af þessum sjóði þótt orðin séu falleg sem hv. þingmaður las hér, orðin eru virkilega falleg, en eitt eru orð og annað er afleiðingin af því ef menn setja mikla styrki til ákveðinna sveitarfélaga eða ákveðinna byggða.