143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:30]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er sami söngurinn, að menn hafi ekki lesið gögn og annað slíkt. Ég hef lesið skýrsluna, ekki kannski alveg frá orði til orðs, (Gripið fram í.)en það kom mér mjög lítið á óvart í skýrslunni af því að ég vissi mikið af því fyrir. Ég vissi til dæmis að Lissabonsáttmálinn gildir í Evrópusambandinu en ekki einhverjar reglur eða óskir frá Íslendingum.

Varðandi það að Evrópusambandið sé að breytast í ríki er það mín ályktun. Ég hef horft á þróunina síðustu 60 árin og það er alltaf að koma eitthvað nýtt upp. Það kemur upp vandamál með umhverfismál og þá breytir Evrópusambandið reglunum og herðir á þeim og setur meiri miðstýringu. Það kemur upp vandamál á fjármagnsmarkaðnum og þá herðir Evrópusambandið líka á og setur reglur um eftirlit, sameiginlegt eftirlit. Það er meira segja verið að tala um að það verði sameiginlegt eftirlit með fjárlögum hvers ríkis. Þá er nú orðið ansi stutt í ríki.