143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:31]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er fegin því að þingmaðurinn hv. leiðrétti það og kom því að að þetta væri hans ályktun. Það var þess vegna sem ég sagði að mér fyndist eins og hann hefði ekki lesið skýrsluna. Ég er ekkert með sama söng, ég held að það séu aðrir hér með sama söng. Það er leiðinlegt að þurfa að sitja undir þessu frá eins málefnalegum þingmanni og Pétri H. Blöndal.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann. Hann segir að við mundum hafa mjög lítil áhrif í Evrópusambandinu ef við kæmumst þangað inn, ef við næðum góðum samningi. Ef svo yrði ekki, gefum okkur að svo færi ekki, verðum við væntanlega með EES-samninginn. Finnst honum það boðleg framtíð fyrir okkur sem þjóð að hafa áfram ekkert að segja, að eiga ekki lokaorðið um helling, svo ég tali ekki um einhverjar prósentur, af löggjöf (Forseti hringir.) sem við tökum upp hér á landi?