143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:34]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er yfirleitt mjög hlynntur því að spyrja þjóðina í stórum málum. Það þurfa þá að vera greinilegar spurningar og eitthvað rökrétt þarf að vera við þær.

Í ræðu minni fór ég í gegnum það að ef við færum í slíkar kosningar núna með tvo stærstu flokka þingsins, Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn, báða á móti, hvernig staða kæmi þá upp? Jú, jú, þeir mundu halda áfram viðræðum ef þjóðin mundi samþykkja það, en það yrði með hangandi hendi og þeir lægju örugglega undir miklum ámælum fyrir að hafa ekki unnið rétt að því að sækja um á réttum hraða.

Ég minntist í ræðu minni á Jón Bjarnason, hv. þingmann, sem þá var ráðherra, að það gekk mjög illa hjá honum að ná samningum um sjávarútvegs- og landbúnaðarmál sem hann var yfir, vegna þess að hann var hreinlega á móti því að ganga í Evrópusambandið.

Varðandi ræðu hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur kem (Forseti hringir.) ég að henni á eftir.