143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:35]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið.

Mér finnst þessi afstaða svolítið undarleg að ef báðir flokkarnir eru á móti hljóti það að skemma fyrir starfinu. Það eru alveg til í heiminum þjóðir þar sem það viðgengst að fólk kemst að einhverri niðurstöðu þrátt fyrir að vera ósammála en síðan þegar ákvörðunin er tekin þá vinni það saman að því sem er best fyrir alla. Og að sjálfsögðu er það best fyrir þjóðina að fá sem bestan samning.

Það sem ég velti samt sérstaklega fyrir mér er að þetta snýst ekki endilega um það að fara inn í ESB heldur snýst þetta um að spyrja þjóðina til að leiða þetta mál til lykta. Ég tók eftir því að 16. júlí 2009 greiddi hv. þm. Pétur H. Blöndal atkvæði með breytingartillögu þess eðlis að spyrja þjóðina áður en gengið væri til viðræðna, sem var breytingartillaga sem hv. þm. Birgitta Jónsdóttir studdi einnig og með réttu.

Ég velti fyrir mér hvort þessi rök, þessi umræða, þessi skýrsla ættu ekki að duga til þess (Forseti hringir.) að ef þjóðin væri spurð við næstu sveitarstjórnarkosningar að þjóðin segði nei.