143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[19:00]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég spurði út frá skýrslu Hagfræðistofnunar, hún hlýtur að hafa verið vendipunkturinn sem olli því að í staðinn fyrir að fylgja stjórnarsáttmálanum — þar sem segir að gert verði hlé á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið, það er dálítið annað en að draga umsóknina til baka — hefur verið ákveðið, eftir að þessi skýrsla kom fram, að umsvifalaust þyrfti að leggja fram tillögu um að slíta viðræðum, þ.e. að draga umsóknina til baka. Það hlýtur að byggja á upplýsingum sem koma fram í skýrslu Hagfræðistofnunar, eða hvað? Eða lá það bara fyrir allan tímann að menn ætluðu ekkert að nota hana?

Ég er að spyrja út frá skýrslunni og ég vona að hæstv. ráðherra geti svarað mér hér hvers vegna ríkisstjórnin telur sig, og þá væntanlega byggt á skýrslunni, þurfa að ganga lengra en landsfundarsamþykkt Sjálfstæðisflokksins segir til um og lengra en stjórnarsáttmálinn segir til um, þar sem talað er um að gera hlé á viðræðum en ekki að draga umsóknina til baka. Þetta eru svo gjörólíkir þættir.