143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[20:00]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér skýrslu utanríkisráðherra um aðildarviðræður við Evrópusambandið og um þróun mála innan sambandsins. Það er ankannalegt að vera að ræða þessa skýrslu sem átti að vera undanfari ákvörðunartöku um framhaldið þegar hæstv. utanríkisráðherra er kominn miklu lengra en við hin. Hann er eflaust bráðger maður og allt það en þessi skýrsla átti að vera undirstaða þess að við tækjum upplýsta umræðu um í hvaða farveg við vildum setja þetta mál. Þessi úttekt átti að snúast um það hver staða aðildarviðræðnanna milli Íslands og Evrópusambandsins væri, hver laga- og stofnanaþróunin væri í Evrópusambandinu og horfur í efnahagsmálum. Við erum hins vegar í raun komin lengra með þessari þingsályktunartillögu sem hefur verið dreift í þinginu af hæstv. utanríkisráðherra um að afturkalla aðildarumsóknina. Ég tel rétt að fjalla um þessi mál á breiðum grundvelli og fara yfir þau, bæði forsöguna og hugsanlegan feril í framhaldinu.

Við þekkjum flest forsögu þessa máls, það hefur fylgt þjóðinni til fjölda ára. Niðurstaðan varð sú að sótt yrði um aðild eftir að Samfylkingin og Vinstri hreyfingin – grænt framboð gengu til ríkisstjórnarsamstarfs vorið 2009. Á þeim tíma hefði ég viljað að þjóðin yrði spurð hvort við ættum að fara í aðildarviðræður og greiddi atkvæði með þeirri tillögu sem kom fram í þinginu. Niðurstaðan varð hins vegar sú að hún var felld og málið fór í þann farveg sem við þekkjum og var í vinnslu stærstan hluta síðasta kjörtímabils þar til málið var sett á ís í upphafi síðasta árs.

Málinu er ekki þar með lokið og mér finnst að við öll, þingmenn sem erum nú á Alþingi, verðum að taka stöðuna eins og hún er núna en ekki vera með það í baksýnisspeglinum hvernig þetta mál fór af stað, hver sagði hvað, hver gerði hvað og hvort vel hafi verið staðið að þeirri vinnu sem fór fram á vegum ráðuneyta og samninganefndar. Ég held að hún hafi verið vörðuð mjög vel af þeirri þingsályktunartillögu sem var samþykkt í utanríkismálanefnd á sínum tíma.

Ég held að við verðum að sýna þann þroska sem þjóð að taka stöðuna eins og hún er. Hvort sem mönnum líkaði það betur eða verr fór þetta mál í þennan farveg og er komið þetta langt. Það varðar ekki bara okkur sem þjóð heldur líka þjóð á meðal þjóða og við verðum að bera þá virðingu fyrir okkur sem sjálfstæðri þjóð að við séum ekki að kasta þessu fram og til baka. Það verður líka að taka ábyrgð á því sem komið er og vanda vel til verka í framhaldinu.

Mér finnst ekki spurning að það verður að tryggja aðkomu þjóðarinnar á þessu stigi með einhverjum hætti. Það er ekki málinu til góðs að setja það í þann farveg að hægt sé að rífa þetta til baka og henda út í buskann, að þar með sé búið að þagga niður í þjóðinni og að þessi umræða verði ekki til staðar í framhaldinu. Það er mjög mikil forræðishyggja. Ég sem hef í langan tíma verið andvíg inngöngu í Evrópusambandið tel að allir kosningarbærir menn eigi þann rétt, þar sem málið er gengið þetta langt, að hafa aðkomu að málinu, að hafa eitthvað í höndunum sem segir meira en það hvað við hugsanlega gætum fengið ef við gengjum í ESB og taka þannig í framhaldinu upplýsta ákvörðun.

Mér finnst það mjög groddalegt af núverandi stjórnarflokkum, sem höfðu uppi miklar meiningar um það fyrir kosningar, hvor með sínum hætti, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, að auðvitað ætti þjóðin að koma að þessu máli. Þannig gátu þeir ýtt því til hliðar í kosningabaráttunni fyrir tæpu ári og sett önnur stór mál á dagskrá, mikil og digur kosningaloforð eins og annar stjórnarflokkurinn lagði að minnsta kosti upp með. Stór hluti þjóðarinnar treysti því að þetta yrði aldrei ákveðið á annan hvorn veginn nema með aðkomu þjóðarinnar.

Síðan fengu menn góða kosningu, a.m.k. annar stjórnarflokkurinn, út á digur kosningaloforð og settu þetta mál í baksætið með væntingum fólks um að það fengi lýðræðislegan feril ef viðkomandi flokkar kæmust til valda.

Áhugi landsmanna hefur vissulega sveiflast í þessu máli og í ljós hefur komið að meiri hluti þjóðarinnar vill ljúka aðildarviðræðum þó að meiri hluti þjóðarinnar, ef hann er spurður beint hvort hann vilji ganga í ESB eða ekki, vilji ekki ganga í sambandið. Þetta tvennt er líka tveir ólíkir þættir sem við verðum að aðgreina í þessari umræðu.

Ég hef sagt og heyri það í kringum mig að eftir því sem þetta fer að líkjast meira einhverju trúarbragðastríði milli þeirra aðila sem eru hvorir á sínum endanum í þessu máli, að telja að allt fari til betri vegar ef við göngum í ESB annars vegar og hins vegar sjá ekkert jákvætt við það að ganga í Evrópusambandið, að eftir því sem öfgarnar verða meiri á hvorn veginn stækkar sá hópur sem vill fá að hafa aðkomu að þessu máli og láta ekki 63 þingmenn eina ráða niðurstöðunni. Það er jafn afdrifarík ákvörðun á þessu stigi, miðað við það sem á undan er gengið og við erum komin þetta langt með þetta stóra mál, að ákveða að skera algjörlega á alla þá vinnu sem hefur farið fram, kostað tíma og peninga, og líka að burt séð frá pólitískum línum eru menn að vinna að málum í samstarfi við aðrar þjóðir og við viljum láta taka okkur alvarlega í þeim efnum, og hins vegar gagnvart þeim sem telja að allt lagist hérna, efnahagsástandið horfi strax til betri vegar, og hafa þá trú að við getum tekið upp annan gjaldmiðil sisona. Það hefur komið fram að það væri að minnsta kosti ekki í boði næstu tíu árin þó að við samþykktum inngöngu í ESB. Við þurfum líka að uppfylla skilmála til að geta tekið upp evru. Við þurfum að koma efnahagsmálum okkar í lag, alveg burt séð frá því hvort landið er innan eða utan Evrópusambandsins. Það eru næg verkefni heima fyrir. Það er enginn heimsendir á hvorn veginn sem þetta fer, það er bara þannig.

Ef við förum ekki inn í ESB á næstu tíu, fimmtán árum leggjum við samt ekki upp laupana á Íslandi og segjum okkur á sveitina. Við ætlum okkur einhverja framtíð hérna enda höfum við fulla burði til þess að byggja upp velmegunarþjóðfélag með félagslegu réttlæti. Löggjafinn hér getur samið sín lög til að mæta kröfum um fjölda mála sem snúa að umhverfismálum, félagslegu réttlæti og aukinni velferð hér á landi.

Það hefur komið upp í umræðunni að stórir og miklir byggðastyrkir bjóðist ef við göngum í Evrópusambandið og það mæti því þá að hér hefur ekki ríkt nein byggðastefna sem neitt gagn er að undanfarin 20 ár eða svo. Ég segi: Kökunni er bara ekki rétt skipt. Auðvitað hefðum við haft fulla burði til þess sem ríkt samfélag í öll þessi ár að skipta kökunni réttlátar og að skatttekjur landsbyggðarinnar skiluðu sér aftur heim í héruð til uppbyggingar þar. Það er ekkert sem bannar það. Mér finnst það nauðhyggja þegar menn horfa til þess að það sé einhver framtíðarsýn að lifa við styrki. Íslensk þjóð á ekki að þurfa að vera einhver styrkþegi, þá er heimsmyndin orðin eitthvað skrýtin ef við sjáum land okkar og þjóð fyrir okkur í samfélagi þjóðanna sem styrkþega. Þetta er alltaf spurning um hvernig þjóðartekjum er skipt í þessu rúmlega 300 þús. manna landi.

Ég segi fyrir mína parta að ég vil nálgast þetta mál út frá lýðræðissjónarmiðum. Mér finnst það vera stóri pósturinn í þessu öllu og við verðum að sýna þjóðinni þá virðingu hvar sem við stöndum, yst á hvorum kantinum í þeim sjónarmiðum að ekkert sé gott í Evrópusambandinu og að allt hljóti að fara til betri vegar ef við göngum þar inn, að það er auðvitað þjóðin sem verður að fá að koma að þessu máli þegar við erum stödd hér og nú. Við verðum að taka stöðuna miðað við hvernig málum er háttað núna en ekki miðað við hvernig málum var háttað í kjölfar hrunsins. Við erum komin lengra.

Ef stjórnarflokkarnir ætla að þverskallast við og knýja það fram að afturkalla umsóknina án nokkurrar aðkomu þjóðarinnar eru þeir flokkar sem telja að hag okkar sé betur borgið utan ESB að byggja upp hóp í landinu sem er miklu hlynntari því að skoða í þennan pakka og ganga í ESB en annars væri. Við vitum að það er allt svo spennandi sem ekki má. Þegar svona er haldið frá þjóðinni rís þjóðin auðvitað upp og segir:

Hvaða rétt hafið þið til að taka þetta frá okkur? Þetta er það stórt mál að við eigum fullan rétt á því að taka þessi skref fram á við með ykkur og taka ákvörðun með ykkur en láta ekki troða ofan í kok á okkur því sem þið ákveðið hér og nú.