143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[20:21]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nú erum við stödd á öðrum stað en við vorum fyrir rúmum fjórum árum. Nú er búið að ljúka fjölda kafla og það eru þessir tveir — jú, vissulega erfiðustu kaflarnir, landbúnaðarkaflinn og sjávarútvegskaflinn — sem eru eftir. Þess vegna er allt annað núna að ljúka þeim köflum en var að byrja frá upphafi. Við erum komin miklu lengra í þessu ferli en var þá.

Ég tel að afstaða Vinstri grænna til inngöngu í ESB hafi ekki skipt sköpum hvað það varðar hvernig þessi mál þróuðust. Við lögðum áherslu á að byrja á þessum erfiðustu köflum en ekki var vilji til þess hjá Evrópusambandinu að gera það og því var farið í að ljúka öðrum köflum sem voru minna umdeildir. En ég held að það ætti ekki að vera neinum erfiðleikum bundið að fá niðurstöðu, ef menn eru heiðarlegir í þeirri vinnu að klára málið þá er það hægt. En auðvitað þarf að vera vilji til þess.