143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[20:27]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum sjálfsagt ekki sammála um þetta, ég og hv. þingmaður, að öllu leyti. Ég er sannfærð um að ef Ísland gengi í Evrópusambandið mundu hinar dreifðu byggðir landsins njóta góðs af styrkjakerfi og byggðastefnu þess. Þar er einmitt þetta nálægðarsjónarmið uppi og ekki verið að miðstýra fjárveitingunum heldur eru lagðir styrkir eftir forgangsröðun landsvæða. En það er önnur saga.

Ég vil spyrja hv. þingmann um meðferðina á umræddri skýrslu. Nú gagnrýndum við, undir liðnum um fundarstjórn forseta hér í dag, að niðurstaða stjórnvalda komi fram í þingsályktunartillögunni sem átti að byggja á þessari skýrslu. Er hv. þingmaður sáttur við meðferð skýrslunnar? Við hvern er hún að tala í ræðu sinni? Er hún að tala bara til þjóðarinnar eða er hún að tala til stjórnarliða?