143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[20:29]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni góða ræðu. Ég ber mikla virðingu fyrir viðhorfi hennar til þessa máls enda hefur hún nálgast það með uppbyggilegum hætti. Hún hefur viljað halda áfram að sjá niðurstöðu samningaviðræðna þó að hún hafi ekki stutt eða styðji ekki aðild að Evrópusambandinu. Það er málefnaleg afstaða, þó svo að talsmenn stjórnarmeirihlutans á Alþingi geri mikið af því að úthúða slíkri afstöðu og fordæma hana og þykjast með þeim hætti hafa einhverja siðferðilega yfirburði yfir aðra þingmenn.

Athyglisvert er, vegna þess að skýrslan átti að vera grunnur að einhverri ákvarðanatöku, að hæstv. utanríkisráðherra lætur nú ekki svo mikið sem að sitja hér í salnum undir umræðunni, flutningsmaður málsins, virðulegi forseti. Spurning hvort ekki sé eðlilegt að gera ráðstafanir til þess að utanríkisráðherra sitji undir umræðu um hans eigin skýrslu þó að hann hafi ekki sjálfur áhuga á að vita hvað í henni er.

(Forseti (ÞorS): Forseti mun gera ráðstafanir til að kalla hæstv. utanríkisráðherra á vettvang.)

Ég þakka forseta fyrir það.

Hvað varðar efni skýrslunnar (Gripið fram í: … andsvar …) er með ólíkindum að sjá þann ágalla á skýrslunni þegar maður les hana að í henni er hvergi talað um markaðsaðgang sem slíkan. Og af því að hv. þingmaður er mikill áhugamaður um sjávarútvegsmál þá var það auðvitað forsenda aðildar okkar að EES á sínum tíma að við vorum að opna markaðinn, við vorum að opna Evrópumarkað fyrir íslenskum fyrirtækjum, fjölga störfum í landinu og auka verðmæti útflutningsafurða. Það er ekki orð um markaðsaðgang fyrir sjávarafurðir en það er samt enn þá fullt af tollum á íslenskum sjávarafurðum.

Ég fer kannski betur yfir það í síðara andsvari en ég vildi gjarnan spyrja þingmanninn: Hvernig finnst henni þetta út frá því að skýrslan á að vera heildstæð umgjörð utan um ákvarðanatöku um framtíðina? Ég sé hvergi fjallað um tollmúra eða þá tollmúra sem eftir eru milli Íslands og Evrópusambandsins og hver ávinningurinn yrði af því að losna við þá.