143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[20:34]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað mikill ágalli á skýrslunni að hún fjalli ekkert um markaðsaðgang og mikilvægi hans.

Þegar við gengum í EES náðum við tollfríðindum fyrir 96% af útflutningsafurðum Íslendinga vegna þess að þá voru útflutningsafurðir í sjávarútvegi nær alfarið bolfiskur. Og hugtakið gámafiskur, sem var í öllum fréttatímum fyrir 1992, hefur ekki heyrst síðan vegna þess að farið var að vinna í ríkari mæli afurðir hér í landinu.

Uppsjávarfiskur er ekki inni í tollfríðindum samkvæmt EES-samningnum. Við höfum engin tollfríðindi fyrir makríl, síld eða loðnu ef frá eru talin síldarsamlokufríðindi sem við fengum árið 2004 í sérsamningum. Þarna erum við því að flytja störfin úr landi alveg eins og við gerðum fyrir gildistöku EES-samningsins. Við getum ekki unnið þetta til fulls — það er 15–20% tollur á þeim afurðum — og skapað verðmæti hér og störf í landinu.

Ég vil þess vegna spyrja þingmanninn: Er þetta ekki gríðarlegur ágalli? Menn hafa verið að skjóta á að hægt sé að auka (Forseti hringir.) verðmæti íslenskra sjávarafurða um 20–30% að minnsta kosti, tugi milljarða, jafnvel 100 milljarða með því að (Forseti hringir.) nýta þessi tækifæri. Finnst hv. þingmanni það ekki mikill ágalli á skýrslunni að í henni sé ekki umfjöllun um þessa þætti, um hvað það getur þýtt fyrir íslenskan sjávarútveg að auka vinnsluverðmæti með þessum hætti?