143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[20:56]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, það er ekki vænlegasti kosturinn vegna þess að vænlegasti kosturinn er að halda áfram samningaviðræðum og ganga frá samningi sem fyrst, það er vænlegasti kosturinn. Næsti kostur er þá sá að setja þetta á ís.

Það er mikill greinarmunur á því að ganga til aðildarviðræðna eða að hætta þeim, vegna þess að þegar þú gengur til aðildarviðræðna þá opnar þú dyr og þar er einhver möguleiki sem þú ætlar hugsanlega að fara í gegnum einhvern tíma. Kannski vill fólk ekki fara inn um þær dyr og þá gerir fólk það ekki.

Á hinn bóginn þegar þú ert að draga til baka þá ertu að loka dyrunum og þú kemst ekki í gegn, þú þarft að byrja upp á nýtt. Það er hárrétt sem menn segja, held ég, að Evrópusambandsríkin öll eru mjög þolinmóð og það er náttúrlega vegna þess að þetta eru sjálfstæðar þjóðir og þær segja: Þið eruð sjálfstæð þjóð, þið gerið auðvitað það (Forseti hringir.) sem þið teljið rétt og best, réttast og bestast, mundu krakkarnir segja. (Forseti hringir.) En ég er ekki viss um að auðvelt yrði að byrja upp á nýtt.