143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[21:01]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, ég er ekki sammála því. Það væri ekki til mikils unnið að vera búin að ganga frá því erfiðasta fyrst, þá getur hinn bara sagt: Gleypið þá allt hitt, nú hafið þið fengið það erfiðasta í gegn, gleypið bara hitt. Nei, ég tel mjög eðlilegt að það erfiðasta komi síðast.

Hv. þingmaður segist skilja skýrsluna á þann veg að ekki sé um neinar varanlegar undanþágur að ræða. En það er ekki rétt, það hýtur að vera varanleg undanþága ef þú færð eitthvað skrifað inn í samninginn, sem er viðauki við stóra samninginn, og því verður ekki breytt nema með þínu atkvæði, þá hlýtur það að vera varanleg undanþága.

Ég sá einhvers staðar — ég finn það bara ekki, virðulegi forseti — að sagt var um fasteignir að ekki hefði fengist varanleg undanþága neins staðar en svo skemmtilega vildi til að innan sviga stóð svo: Nema í Danmörku og á Möltu. (Gripið fram í.) — Það stendur nú á Möltu. Þingmaðurinn veit þá betur en ég, bara meira í pokann.