143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[21:05]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru eiginlega bara þessir tveir kaflar. Við það að lesa þessa tvo kafla í skýrslunni, 8.1 og 8.2, þá stendur einhvern veginn eftir hjá mér að mér finnst þetta alveg afleitur tími til þess að hætta viðræðum vegna þess að þetta er það sem á ensku er kallað, með leyfi forseta, „cliffhanger“, maður veit ekki hvað kemur næst. Varðandi landbúnaðarmálin eru rétt svo nefndar einhverjar innri deilur. Ég reyndi að finna það vefsvæði sem vísað er til en það virkaði ekki seinast þegar ég prófaði það.

Þá langar mig að spyrja hv. þingmann út í hinn kaflann, sjávarútvegsmál. Hvaða höfuðáherslur telur hv. þingmaður mikilvægar til þess að sjávarútvegsmálakaflinn sé viðunandi fyrir íslenskt samfélag? Hvað telur hv. þingmaður að þurfi að gerast í sjávarútvegsmálakaflanum til þess að einhverjar líkur séu á því að íslensk þjóð muni samþykkja samninginn?