143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[21:06]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er stórt spurt. Ég tel í fyrsta lagi að það sé alveg frágengið, sem ég tel reyndar að þurfi ekki að ganga frá, sú meginregla sem núna er um úthlutun veiði úr heildarafla Evrópusambandsins, það sem kallað er hlutfallslegur stöðugleiki. Ég á bágt með að trúa að við næðum því að fá að ákveða aflann hér á Íslandsmiðum en auðvitað mundum við reyna það. Við eigum að reyna, ekki spurning. Hins vegar yrði allur sá afli sem leyfður væri samkvæmt meginreglunni hér.

Síðan er það náttúrlega fjárfesting útlendinga. Danir hafa farið þá leið (Forseti hringir.) að menn þurfa að búa í landinu í 5 ár áður en þeir geta fjárfest í sjávarútvegi. Það þarf að passa upp á þetta en ég held að við getum náð því sem við þurfum.