143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[21:12]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Þar sem ég er næstur á mælendaskrá og hef eingöngu 15 mínútur til að ræða þetta stóra og mikla mál sem hér er til umræðu vil ég mælast til þess við forseta að hann geri viðeigandi ráðstafanir þannig að bæði utanríkisráðherra og fjármálaráðherra verði viðstaddir í salnum þegar ég held ræðu mína vegna þess að ég hyggst leggja fyrirspurnir fyrir báða þessa ráðherra. Það er ekki bara það að ég ætli að leggja fyrirspurnir fyrir viðkomandi ráðherra heldur finnst mér það algerlega óboðlegt að hæstv. utanríkisráðherra, sem er flutningsmaður þessarar skýrslu, skuli ekki sýna þinginu þá virðingu að vera viðstaddur þessa umræðu sem hér er að eiga sér stað. Mér finnst það ekki boðlegt ofan í allt annað sem hann sem fulltrúi og flutningsmaður þessa máls ber hér inn til Alþingis. Þetta er ekki Alþingi til sóma. Ég krefst þess að forseti geri viðeigandi ráðstafanir til að þessir ráðherrar verði hér viðstaddir og fresti fundi þar til þeir eru komnir vegna þess að ég ætla ekki að eyða miklum tíma af ræðu minni í að bíða eftir hæstv. ráðherra.