143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[21:23]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er greinilegt að hæstv. utanríkisráðherra er geðvondur þegar hann hrekkur upp af værum blundi því að öðruvísi er ekki hægt að útskýra þennan hvessing sem kom frá honum áðan. Það er auðvitað þannig að flytjanda máls, flutningsmanni máls, ráðherra máls, er engin vorkunn að sitja í þingsal yfir umræðum um það mál. Hann þarf ekki að koma með einhverjar flökkusögur um að hann hafi verið að fylgjast með einhvers staðar annars staðar í húsinu. Hann á bara að sitja hér í þingsal. Fyrir því er löng hefð og það hafa aðrir ráðherrar gert á undan honum.

Það er ekki boðlegt að koma fram með ásakanir um málþóf í garð þingmanna sem eru að flytja fyrstu ræðu sína. Ef hæstv. ráðherra hefði hlustað á umræðuna, sem hann gerði augljóslega ekki, hefði hann áttað sig á því að hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir, fyrrverandi varaformaður utanríkismálanefndar, var að flytja ræðu sína og hann hefði þá líka heyrt að ég ræddi það til dæmis í andsvari áðan að það er ekki einn einasti kafli í skýrslunni um tollfrjálsan aðgang að sjávarafurðum á Evrópumarkaði. (Forseti hringir.) Það er fullt af hlutum sem hafa komið fram í umræðunni sem hæstv. ráðherra mundi vita af ef hann hefði fylgst með.