143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[21:26]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég kom með ósk í byrjun um að hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra væru viðstaddir þegar ég flytti ræðu mína, þegar ég eyddi 15 mínútum í það sem ég má ræða við þessa fyrri umferð. Ég vil spyrja hæstv. forseta hvert svarið er. Ég tók eftir því að hæstv. utanríkisráðherra skaust hingað inn og henti í okkur þingmenn sem hér eru nokkrum fúkyrðum. Það var eina innleggið og svo sé ég að hann er farinn.

Mér finnst mjög erfitt að koma fram með þessa beiðni — nú þarna er hann. Það er kannski eðlilegt að hann sé í litlu hliðarherbergi, það hæfir jafnvel best í umræðunni. Ef það er rétt sem haft er eftir honum að hann hafi sagt í gær í Sprengisandi að efnislegri umræðu um skýrsluna væri lokið verð ég að segja að það er þvílík óvirðing (Forseti hringir.) við þá fjölmörgu þingmenn sem eiga eftir að tala.

Ég vil mælast til þess að hæstv. utanríkisráðherra verði viðstaddur umræðuna hér í salnum. Ég spyr einnig um hæstv. fjármálaráðherra vegna þess að eftir Kastljósþátt kvöldsins veitir ekki af að spyrja hann líka út í skýrsluna. Ef hann er ekki kominn mælist ég til þess, herra forseti, að gert verði hlé á þingfundi þangað til hæstv. fjármálaráðherra kemur í salinn.