143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[21:27]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég ætla að endurtaka að við erum í umræðu um mál sem varðar framtíðarhagsmuni Íslands. Við erum í umræðu um mál sem varðar það hvort ungir Íslendingar sjái framtíð sinni betur borgið á Íslandi eða fari að leita að öðrum svæðum til íbúðar í framtíðinni til að standa jafnfætis öðrum Evrópubúum. Það er algerlega ólíðandi að við þingmenn sem höfum miklar skoðanir á þessum málum og eigum eftir að fara í fyrri ræðu sitjum undir ávirðingum frá ráðherrum sem hafa látið hafa eftir sér að efnislegri umræðu um skýrsluna sé lokið, af því að þeir hafa þegar myndað sér skoðun, væntanlega áður en henni var lekið í fjölmiðla og við fengum að sjá hana. Ég ætla að koma hingað aftur til að taka undir orð hv. þm. Kristjáns L. Möllers og krefjast þess að hæstv. fjármálaráðherra verði hér þegar verið er að ræða um efnahagslega framtíð Íslands.

(Forseti (ÞorS): Forseti vill taka fram að eins og fram hefur komið er hæstv. utanríkisráðherra staddur hér í hliðarsal og skilaboð hafa verið send hæstv. fjármálaráðherra sem hefur reyndar ekki verið svarað enn.)