143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[21:58]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þá deilum við þeirri skoðun. Ég held að það sé eitthvað sem ríkisstjórnin þorir ekki að takast á við, það sem þar kemur fram og hefur náttúrlega fengið hávær mótmæli núna frá atvinnulífinu mjög víða. Umræðan er svolítið að festast í kappræðustíl andstæðra póla í stað þess að sjá þau sóknarfæri sem geta legið í því að fá samning á borðið. Það hefur aðeins verið vikið að síðasta kjörtímabili og þjóðaratkvæðagreiðslu, það er eitt af því sem var rætt töluvert í dag. Miðað við stöðuna, ef við gætum gert þetta aftur upp á nýtt, mundi hv. þingmaður sjá færi í því og telja það styrkja málið ef við hefðum gengið til atkvæða um viðræðurnar á sínum tíma áður en þær hófust eða mundi hann gera þetta aftur á sama hátt? Mín skoðun er sú og var það þá að við hefðum átt að leita eftir atkvæði þjóðarinnar. (Forseti hringir.) Ég tel reyndar að þær hefðu verið samþykktar á sínum tíma.