143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[22:02]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst að því sem kom fram í síðara andsvari hv. þingmanns sem ég þakka honum fyrir — mér þykir mjög ánægjulegt að einn framsóknarmaður skuli koma í andsvar við mig, að mér hafi tekist að særa einn framsóknarmann upp.

Varðandi atkvæðagreiðsluna og umræðuna 2009 þá var tillagan samþykkt með 33 atkvæðum gegn 28. Man ég það rétt, voru það stuðningsmenn úr öllum flokkum sem sátu hér á Alþingi sem studdu tillöguna? Er það ekki rétt munað hjá mér? Þetta var töluverður munur í svona miklu deiluatriði, 33:28. Og þegar við höfðum, eins og ég lýsti hér áðan, varaformann Framsóknarflokksins sem já-mann og varaformann Sjálfstæðisflokksins, sem sat hjá, þá var það töluvert mikill stuðningur, það var töluvert mikið veganesti.

Varðandi lekann á skýrslunni þá veit ég ekki hverjir fleiri höfðu skýrsluna aðrir en prentstofan sem prentaði hana. En mér finnast það athyglisverðar upplýsingar sem hv. þingmaður kemur fram með um það. Aðalatriðið er að stjórnarflokkarnir voru að ræða þetta að kvöldi til. Nú veit ég ekki hvenær Morgunblaðið er sett en þetta birtist á forsíðu Morgunblaðsins morguninn eftir og því blaði er dreift mjög snemma.