143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[22:06]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður spyr mig um niðurstöðu fyrir bændur. En það er eins og með sjóinn, við vitum ekki nákvæmlega hvað kemur út úr samningsdrögum. En það er margt sem hv. þingmaður talar um (Gripið fram í.) sem er mjög athyglisvert — og bið ég nú formann ungra bænda að bíða aðeins og koma í ræðustól á eftir frekar en trufla mig í ræðu minni hér. Ég skora á formann ungra bænda og hv. þm. Framsóknarflokksins að ræða landbúnaðarkaflann hér á eftir og leyfa okkur að heyra sína sýn á hann.

Það gerðist nefnilega í Noregi, eftir að Norðmenn felldu að ganga í Evrópusambandið, að Noregur tók upp, sem er ansi merkilegt, það besta í byggðapakkanum og gerði byggðastefnu Evrópusambandsins, sem þeir höfðu samið um, að sinni byggðastefnu. Ég ætla að benda hv. þingmanni á, vegna þess að við erum með nýja byggðaáætlun til umfjöllunar í atvinnuveganefnd, að þar eru frá hendi framsóknarmanna sem leggja tillöguna fram fleiri blaðsíður um byggðastefnu Noregs sem við eigum koma hingað til Íslands, en það er einmitt byggðastefna Evrópusambandsins.