143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[22:16]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Í tilefni af þessari umræðu þar sem bæði stjórnarþingmenn virðast bera af sér að bera ábyrgð á leka og vilja sömuleiðis ekki gefa í skyn að embættismenn séu ástæða lekans, þá hefur verið minnst m.a. á þá sem prentuðu skýrsluna. Ég vil segja það hér, hafandi starfað með prenturum [Hlátur í þingsal.] að trúnaðarmálum, bæði í skýrsluformi og einnig þegar hefur komið að ódauðlegum meistaraverkum eins og t.d. bókunum um Harry Potter sem ríkti strangur trúnaður um alveg fram á útgáfudag, að prentarar eru einhver vammlausasta stétt og heldur trúnað betur en flestar aðrar. Ég vil vitna í einn af sonum götunnar sem var hér tíður gestur á árum áður og hann orðaði hlutina oft mjög vel. Hann sagði: „Þú skalt ekki vera að rógbera íslenskan prentaraiðnað, þennan mesta og besta prentaraiðnað á landinu.“ [Hlátur í þingsal.]