143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[22:21]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tel að sú umræða sem við höfum átt greiði öll fyrir þingstörfum því að ég held að lekamálið hið nýja sé allt að skýrast. Komið hefur fram að það sé ákaflega ólíklegt að prentararnir hafi lekið skýrslunni. Hv. þm. Karl Garðarsson telur það af og frá að þingmenn Framsóknarflokksins hafi lekið skýrslunni og ég trúi alltaf hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur og tek það fullkomlega gott og gilt þegar hún segir að ekki hafi það lekið frá Sjálfstæðisflokknum. (Gripið fram í.) Já, ég trúi því. Þá er bara einn aðili eftir sem hér hefur verið nefndur. Hann var reyndar nefndur af hv. þm. Karli Garðarssyni. Það kom fram hjá honum eða einhverjum öðrum að þetta hefði fyrst birst á heimasíðu Heimssýnar. (Gripið fram í.) Heimssýn hlýtur þá að vera sá aðili sem er hinn seki. Þá skulum við vona að sá sem þar hamraði á tölvu kunni töluvert betri skil á landafræði smáríkja í Miðjarðarhafinu en sumir sem því tengjast.